Insurance companies have to work in accordance with the Icelandic law. The law regulates what is covered and what not. Our Car Rental company Camper Iceland buys the most sophisticated insurance on the market.
Check the attachments (conditions in English) for the exact terms of our insurance company or feel free to read the law:
Lög um vátryggingarsamninga
1954 nr. 20 8. mars
I. kapítuli. Sameiginlegar reglur um allar tegundir vátrygginga.
Inngangur.
1. gr. Lög þessi gilda um vátryggingarsamninga, sem gerðir eru við vátryggingarhlutafélög, gagnkvæm vátryggingarfélög eða önnur félög eða stofnanir, sem reka vátryggingarstarfsemi.
Lögin gilda ekki um:
a. endurtryggingar;
b. almannatryggingar samkvæmt l. nr. 50 7. maí 1946, sbr. l. nr. 1 12. janúar 1952 og l. nr. 38 27. febrúar 1953;1)
c. stríðsslysatryggingar skipshafna samkvæmt l. nr. 43 9. maí 1947, eða ófriðartryggingar, sbr. l. nr. 2 21. janúar 1944;
d. tryggingar samkvæmt l. nr. 51 27. júní 1921, l. nr. 41 27. júní 1925, l. nr. 15 7. maí 1928,2) l. nr. 101 30. desember 1943,2) sbr. l. nr. 40 15. febrúar 1945,2) l. nr. 102 30. desember 1943,3) l. nr. 103 30. desember 19434) og l. nr. 86 11. júní 1938, sbr. l. nr. 114 30. maí 1940;5)
e. samninga, þar sem stéttarfélög lofa að veita meðlimum sínum bætur fyrir tjón, er þeir bíða af atvinnuleysi eða stöðvun atvinnurekstrar;
f. samninga, þar sem vinnuveitandi heitir mönnum, er starfað hafa við atvinnurekstur hans, eftirlaunum.
1)Nú l. 117/1993. 2)Nú l. 29/1963. 3)Nú l. 29/1963, sbr. l. 93/1980. 4)Nú l. 16/1965. 5)Nú l. 18/1992.
2. gr. „Félagið“ merkir í lögum þessum vátryggjanda.
„Vátryggingartaki“ merkir þann, er gert hefur samning um vátryggingu við félagið.
„Vátryggður“ merkir þann, sem kröfu á um greiðslu bóta, er til hennar kemur.
3. gr. Ákvæði laga þessara koma því aðeins til greina, að eigi sé á annan veg áskilið berum orðum í samningi eða verði talið í honum fólgið. Þetta gildir þó ekki um þau ákvæði, er lögin sjálf berum orðum lýsa ófrávíkjanleg eða ófrávíkjanleg eru samkvæmt öðrum réttarreglum.
Rangar upplýsingar við samningsgerð.
4. gr. Hafi vátryggingartaki, er vátryggingin var tekin, sviksamlega gefið rangar upplýsingar um atvik, er ætla mátti að skiptu máli fyrir félagið, eða leynt slíkum atvikum sviksamlega, er samningurinn ekki skuldbindandi fyrir félagið. Sama gildir, ef framkoma hans hefur að öðru leyti verið með þeim hætti, að það mundi almennt verða talið óheiðarlegt að bera samninginn fyrir sig.
5. gr. Ef ætla má, að vátryggingartaki hafi, er vátryggingin var tekin, hvorki vitað né mátt vita, að upplýsingar, er hann gaf, voru rangar, er félagið skuldbundið svo sem engar rangar upplýsingar hefðu verið gefnar.
Sé um skaðatryggingu að ræða, getur félagið þó sagt vátryggingunni upp með 14 daga fyrirvara.
6. gr. Hafi vátryggingartaki gefið rangar upplýsingar, er öðruvísi stendur á en segir í 4. og 5. gr., er félagið laust mála, ef ætla má, að það hefði ekki tekið á sig vátrygginguna, hefði það haft rétta vitneskju um málavexti.
Ef ætla má, að félagið hefði tekið vátrygginguna á sig, en með öðrum kjörum, ábyrgist það að þeim mun, sem það mundi hafa skuldbundið sig fyrir hið umsamda iðgjald. Ef félagið mundi hafa takmarkað ábyrgð sjálfs sín enn frekar með endurtryggingu, lækka bæturnar í hlutfalli við það.
Sé um sjóvátryggingu eða aðra flutningatryggingu að ræða, gilda ákvæði 2. mgr. ekki. Í þess stað ábyrgist félagið þá aðeins að þeim mun, sem sannað verður, að atvik þau, er rangt var skýrt frá, hafi engin áhrif haft um það, að vátryggingaratburðurinn gerðist eða hve mikið tjónið varð.
7. gr. Láti vátryggingartaki hjá líða að skýra frá atvikum, skiptir það engu máli um ábyrgð félagsins, nema honum hafi mátt vera það ljóst, að atvik þau, er eigi var frá skýrt, skiptu máli fyrir félagið, og meta megi það atferli stórkostlegt gáleysi af hans hálfu. Ef svo er, skal það metið sem hann hefði gefið rangar upplýsingar, sbr. 6. gr.
8. gr. Vilji félagið bera fyrir sig eitthvert atvika þeirra, er ræðir um í 5.–7. gr., skal það, er það hefur fengið vitneskju um þau, skýra vátryggingartaka án ástæðulausrar tafar frá því, að hve miklu leyti það vill neyta réttar þess, er umræddar greinar veita því.
9. gr. Félagið getur eigi borið það fyrir sig, að rangt hafi verið frá skýrt eða launung viðhöfð, hafi það vitað hið rétta, er vátryggingin var tekin, eða mátt vita það, né heldur, ef atvik þau, er félaginu var ókunnugt um, skiptu það eigi máli eða skipta eigi máli framar.
10. gr. Félagið getur eigi borið fyrir sig samning, sem fer í bága við 5. gr. eða 7.–9. gr.
Hafi félagið undanskilið sig ábyrgð, ef svo skyldi reynast, að upplýsingar, er annar maður en vátryggingartaki gaf því, reyndust rangar, þá hefur það eigi ríkari áhrif en það mundi hafa haft, ef vátryggingartaki sjálfur hefði gefið þær upplýsingar.
Sama gildir, ef félagið hefur lýst einhverjum atvikum í vátryggingarskírteininu, án þess að leita um þau vitneskju hjá vátryggingartaka, og það hefur áskilið sér að vera að nokkru eða öllu undanþegið ábyrgð, ef lýsing atvika þessara reyndist að vera röng.
Upphaf ábyrgðar félagsins.
11. gr. Nú hefur vátryggingarsamningur verið gerður, en eigi á það kveðið, hvenær ábyrgð félagsins skuli hefjast, og telst hún þá hefjast, þegar félagið eða vátryggingartaki sendir frá sér orðsendingu um, að hann samþykki tilboð hins.
Orðsendingar þær, er ræðir um í 1. mgr., skulu taldar hafa verið sendar kl. 6 síðdegis, sé annað eigi sannað.
Iðgjaldið.
12. gr. Hið fyrsta iðgjald fellur í gjalddaga þegar, er samningurinn er gerður, enda sé eigi um annan gjalddaga samið.
Eigi iðgjaldið að greiðast með fleiri greiðslum, hverri fyrir sitt tímabil, eða sé vátryggingin framlengd með samningi eða samkvæmt 84. gr., er hinn fyrsti dagur hvers tímabils gjalddagi hinna síðari iðgjalda.
13. gr. Sé fyrsta iðgjaldið eigi greitt á réttum tíma, má félagið segja vátryggingunni upp, og fellur samningurinn þá með öllu niður, sé iðgjaldið eigi greitt innan þriggja daga. Sama gildir, sé síðara iðgjald eigi greitt innan viku eftir að félagið hefur krafið vátryggingartaka greiðslu. Þá kröfu má þó í fyrsta lagi gera viku fyrir gjalddaga.
14. gr. Verði hið fyrsta iðgjald eigi greitt, er þess er krafist, en þá kröfu má í fyrsta lagi gera á gjalddaga, er ábyrgð félagsins lokið. Sama gildir, séu síðari iðgjöld eigi greidd innan viku frá því, að þeirra var krafist, en krefja má þeirra í fyrsta lagi viku fyrir gjalddaga.
Fyrirvarar um að ábyrgð félagsins skuli þá fyrst hefjast, er hið fyrsta iðgjald er greitt eða skírteini afhent, eru ógildir.
Meðan samningurinn er ekki með öllu fallinn úr gildi, má vátryggingartaki greiða iðgjaldið, og hefst þá ábyrgð félagsins að nýju, frá því að greiðslan fór fram.
15. gr. Nú eru liðnir 3 mánuðir frá því að greiðslu iðgjalds var krafist, og er það enn ógreitt, og fellur samningurinn þá úr gildi uppsagnarlaust, enda hafi félagið eigi byrjað lögsókn til heimtu iðgjaldsins. Ábyrgð félagsins hefst að nýju við byrjun þeirrar lögsóknar. Láti félagið lögsóknina niður falla eða leiði hún eigi til fullnustu kröfunnar, lýkur ábyrgð félagsins að nýju, og skal þá litið svo á, sem lögsóknarfresti þeim, sem getur í 1. málsl., hafi eigi verið slitið.
16. gr. Hafi félagið, samkvæmt ákvæðum laga þessara, sagt vátryggingarsamningnum upp til slita, áður en sá tími, er hann var gerður um, var liðinn, eða falli samningurinn úr gildi samkvæmt 15. gr., og á félagið þá rétt á iðgjaldsupphæð þeirri, er greiða hefði átt, ef vátryggingin hefði aðeins verið gerð um þann tíma, sem liðinn er.
Falli samningurinn úr gildi af öðrum ástæðum, á félagið rétt á þeim hluta iðgjaldsins, er samsvarar tímanum fram til þess, að samningurinn féll úr gildi.
17. gr. Eigi verður, svo gilt sé, samið svo um, að greiðslufall á lúkningu iðgjalds hafi í för með sér harðari kosti fyrir vátryggingartaka eða vátryggðan en segir í 13.–15. gr. Ákvæði 2. og 3. málsl. 13. gr. og 16. gr. gilda eigi um líftryggingar.
Ásetnings- eða vangáratferli, er veldur því, að vátryggingaratburðurinn gerist.
18. gr. Ef vátryggður verður þess valdur af ásettu ráði, að vátryggingaratburðurinn gerist, á hann enga kröfu á hendur félaginu.
Hafi hann af vangá sinni valdið því, að vátryggingaratburðurinn gerðist, og telja má vangá hans stórkostlega eftir því, sem atvik lágu til, skal úr því skorið, hvort greiða skuli bætur og hve háar, eftir því, hversu mikil sökin er, og eftir öðrum atvikum. Þegar um er að ræða líftryggingar eða ábyrgðartryggingar, ber félagið þó fulla ábyrgð.
19. gr. Ákvæðum 18. gr. um brottfall eða takmörkun ábyrgðar félagsins skal þó eigi beitt, er vátryggður var yngri en 15 ára eða gat eigi hegðað sér skynsamlega vegna geðveiki, andlegs vanþroska, geðtruflana um stundarsakir eða annars þess konar ástands.
Sama gildir, ef verknaður sá, er leiðir til þess, að vátryggingaratburðurinn gerist, er unninn í því skyni að varna því, að tjón verði á mönnum eða eignum, og með þeim atvikum, að hann verði talinn réttmætur.
20. gr. Eigi verður, svo gilt sé, samið svo um, að félagið skuli laust úr ábyrgð, er því, að vátryggingaratburðurinn gerðist, hefur verið valdið af vangá, er ekki verður talin stórkostleg. Ákvæði þetta er því þó eigi til fyrirstöðu, að samið sé um það, bæði að félagið skuli leyst úr ábyrgð, er vátryggður hefur valdið vátryggingaratburðinum í ölæði, er honum verður sjálfum gefin sök á, og að félagið megi draga allt að 5% frá bótunum, er vátryggingaratburðurinn stafar frá vangá, sem eigi verður talin stórkostleg.
Skyldur vátryggðs, er vátryggingaratburðinn ber að höndum.
21. gr. Þegar vátryggingaratburðurinn hefur gerst, skal vátryggður þegar í stað skýra félaginu frá því, ef hann ætlar að hafa uppi kröfur á hendur því vegna hans.
Vanræki vátryggður þetta, ber félagið ekki frekari ábyrgð en það mundi hafa borið, ef slík tilkynning hefði verið gefin. Ef líkur eru að því leiddar, að félagið hafi vegna þessarar vanrækslu misst af tækifæri til að leiða sönnur að atvikum, sem mundu hafa leitt til þess, að ábyrgð þess hefði fallið niður eða orðið minni en ella, skal úr því skorið, með hliðsjón af atvikum málsins, hvort bætur skuli greiða, og ef svo er, hve háar.
Ef svo er um samið, að vátryggður skuli skýra frá atburðum, sem félagið ábyrgist afleiðingar af, enda þótt þær afleiðingar séu enn eigi komnar í ljós, gilda ákvæði þau, sem sett eru hér að framan, eftir því sem við á.
Eigi verður, svo gilt sé, samið um það, að vanræksla vátryggðs eða annarra á því að gefa félaginu tilkynningu svo sem hér var sagt, skuli hafa meiri afleiðingar en nú var um mælt.
22. gr. Hafi vátryggður uppi kröfur á hendur félaginu, er honum skylt að veita því allar þær upplýsingar, er honum er unnt að veita, um atvik, er máli kunna að skipta, er dæma skal um vátryggingaratburðinn, eða er ákveða skal fjárhæð þá, er félaginu ber að greiða, eða endurgreiðslukröfur þær, er félagið kynni að eiga á hendur öðrum mönnum.
Vanræki vátryggður að gefa þessar upplýsingar, hefur það þau áhrif, sem segir í 2. mgr. 21. gr.
23. gr. Ef svo er um samið, að vátryggður, er sviksamlega skýrir frá eða leynir atvikum, er skipta máli, þegar dæma skal um ábyrgð félagsins, skuli glata rétti þeim til bóta, er hann ella hefði átt, getur dómur, með hliðsjón af atvikunum, er svikunum var beitt, ákveðið, að bætur skuli greiða að nokkru eða öllu leyti þrátt fyrir samningsákvæði þetta.
Nú hafa upplýsingar verið gefnar eða vanrækt hefur verið að gefa þær, en hvorugt hefur þetta verið gert í sviksamlegum tilgangi, og hefur það þá eigi önnur áhrif en segir í 2. mgr. 21. gr., þótt á annan veg sé um samið.
Greiðsluskylda félagsins.
24. gr. Krefja má um greiðslu bóta 14 dögum eftir að félagið átti þess kost að afla þeirra upplýsinga, er þörf var á til þess að meta vátryggingaratburðinn og ákveða upphæð bótanna.
Ef augljóst er orðið, áður en endanleg ákvörðun bótanna getur átt sér stað, að félaginu beri að minnsta kosti að greiða nokkurn hluta upphæðar þeirrar, er það er krafið um, má krefjast greiðslu á þeim hluta hennar samkvæmt reglum þeim, sem settar eru í 1. mgr. þessarar greinar.
[Félagið skal greiða vexti af fjárhæðinni frá gjalddaga í samræmi við ákvæði laga um vexti.]1)
Eigi verður, svo gilt sé, samið svo um, að gjalddagi bótanna skuli háður ákvörðun félagsins eða því, að það hafi verið skyldað til greiðslu með dómi.
1)L. 33/1987, 7. gr.
Aðgangsréttur félagsins.
25. gr. …1)
1)L. 50/1993, 29. gr.
Fjárþrot félagsins og vátryggingartaka.
26. gr. Ef bú félagsins er tekið til gjaldþrotaskipta, má vátryggingartaki rifta samningnum. Geri hann það ekki, fellur samningurinn þó úr gildi þrem mánuðum eftir að gjaldþrotaskiptin voru auglýst.
Komi það í ljós við fjárnámsgerð, að félagið skorti fé til að greiða skuldir sínar, eða hafi það stöðvað greiðslur sínar eða reynist fjárhag þess með öðrum hætti þannig varið að ætla megi, að það geti ekki fullnægt skuldbindingum sínum, má vátryggingartaki rifta samningnum, ef félagið setur eigi þegar í stað, er hann krefst þess, nægilega tryggingu fyrir efndum sínum.
Þegar vátryggingarsamningi er rift samkvæmt framangreindum ákvæðum, getur vátryggingartaki krafist bóta fyrir tjón það, er hann bíður við það að vátryggingunni lýkur.
27. gr. Missi félagið rétt til að stunda vátryggingarstarfsemi hér á landi, má vátryggingartaki rifta samningnum. Sama gildir, sé félagið sameinað öðru félagi eða afhendi það öðru félagi fjármuni sína í heild sinni.
Ef efnt er til frjálsra skuldaskila félagsins, fellur vátryggingarsamningurinn niður, þegar ár er liðið frá upphafi skuldaskilanna. Innan þess tíma má vátryggingartaki rifta samningnum, ef félagið setur eigi þegar í stað, er hann krefst þess, nægilega tryggingu fyrir efndum sínum.
Ákvæði 3. mgr. 26. gr. koma hér til greina, eftir því sem við á.
28. gr. Verði bú vátryggingartaka tekið til gjaldþrotaskipta, eða [fái hann heimild til að leita nauðasamnings]1) án gjaldþrotaskipta, þá hefur það, enda þótt öðruvísi sé um samið, engin áhrif á vátryggingarsamninginn önnur en þau, er leiðir af almennum reglum laganna. Þegar um skaðatryggingu er að ræða, má félagið þó áskilja sér rétt til að segja samningnum upp með 14 daga fyrirvara.
1)L. 21/1991, 182. gr.
Fyrning.
29. gr. Kröfur, sem rísa af vátryggingarsamningi, fyrnast á 4 árum frá lokum þess almanaksárs, er kröfuhafinn fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Kröfur um greiðslu bóta eða vátryggingarfjárhæðarinnar fyrnast þó í síðasta lagi á 10 árum frá því að vátryggingaratburðurinn gerðist. Að öðru leyti fer um fyrninguna eftir almennum reglum laganna. Ákvæði 4. mgr. 2. gr. l. nr. 14 20. október 1905 halda gildi sínu.
30. gr. Samningi um að vátryggður glati kröfu sinni, ef hann krefur hennar eigi með lögsókn innan skemmra frests en segir í 29. gr., verður eigi beitt, nema því aðeins að félagið hafi, með eigi skemmri fresti en 6 mánaða, skýrt vátryggðum skriflega frá því, hversu langur fresturinn sé og hvaða afleiðingar það muni hafa, ef hann er látinn líða ónotaður.
Samningi um að félagið skuli vera leyst úr ábyrgð, ef krafa, er rís af vátryggingaratburði, er eigi höfð uppi við félagið innan tiltekins frests, verður eigi beitt gegn þeim manni, er slíka kröfu hefur uppi innan 3 mánaða frá því hann fékk vitneskju um atvik þau, er krafan rís af.
Samningur um framlengingu vátryggingarinnar.
31. gr. Félagið getur eigi borið fyrir sig samning um það, að vátryggingin skuli talin framlengd um lengri tíma en eitt ár, hafi henni eigi verið sagt upp, nema því aðeins að það hafi minnt vátryggingartaka á það, í fyrsta lagi þremur mánuðum og síðasta lagi einum mánuði fyrir lok uppsagnartímans, að vátryggingin mundi framlengjast á þennan veg, ef henni væri ekki sagt upp.
Ákvæði um gerðardóm o.fl.
32. gr. Samningur um að vátryggður eða vátryggingartaki megi ekki njóta aðstoðar annarra manna, er þeir semja við félagið, er ógildur.
Samningi um að vátryggður eða vátryggingartaki skuli mæta sjálfir til slíkra samningaumleitana verður eigi beitt, ef það mundi hafa í för með sér óhæfilega mikinn kostnað eða vera óhæfilegum örðugleikum bundið, ef þess væri gætt.
Nú er svo um samið, að væntanleg ágreiningsefni skuli undanskilin úrskurði dómstóla, og getur þá dómur metið það að engu, ef ákvæðin um skipun og starf þeirra, er úrskurðurinn skal falinn, verða eigi talin tryggileg fyrir vátryggðan.
Um tilkynningar.
33. gr. Tilkynningar frá félaginu til vátryggingartaka eða vátryggðs hafa þá fyrst áhrif, er þeir hafa tekið á móti þeim. Nú kemur tilkynning eigi fram eða eigi á réttum tíma, og stafar það af því, að móttakandi hefur vanrækt að skýra frá því, að hann hafi flutt sig, eða af öðrum atvikum, er hann varða, og fær tilkynningin þá áhrif að lögum daginn eftir að hún undir venjulegum kringumstæðum mundi hafa komið í hendur móttakanda.
Þegar vátryggður hefur afhent þess konar tilkynningu, sem um ræðir í 21., 46. og 67. gr., til sendingar í símskeyti eða með pósti, eða hún hefur verið afhent til flutnings með öðru flutningatæki, er gilt þykir að nota, verður það eigi hans skaði, þótt henni seinki eða hún komi eigi til skila.
Ógildi ósanngjarnra samningsákvæða.
34. gr. …1)
1)L. 11/1986, 9. gr.
II. kapítuli. Skaðatrygging.
A. Almenn ákvæði.
Tryggingarhagsmunir.
35. gr. Gegn skaða má vátryggja sérhverja lögmæta hagsmuni, er metnir verða til peningaverðs, hvort heldur eru hagsmunir vátryggingartaka sjálfs eða þriðja manns.
Vátryggingarverð.
36. gr. Nú er hlutur vátryggður og engir sérstakir hagsmunir tilgreindir, og telst vátryggingin þá taka til þeirra hagsmuna, að verð hlutarins sjálfs rýrni eigi við vátryggingaratburðinn, og tekur hún þá eigi til annarra hagsmuna, sem tengdir eru því, að hluturinn varðveitist. Félagið ábyrgist því ekki rekstrartap né tjón, sem hlýst af því, að hluturinn varð ekki notaður á þeim tíma eða með þeim hætti, sem ráðgert hafði verið.
37. gr. Með undantekningum þeim, sem um getur í 38. og 75. gr., skal verð hlutarins talið nema þeirri upphæð, er þurft hefði til kaupa á hlut þeim, er fórst eða skemmdist, með því verðlagi, er síðast var á slíkum hlut áður en vátryggingaratburðurinn gerðist, að frádreginni hæfilegri verðrýrnun hans vegna aldurs, brúkunar, minnkaðs notagildis og annarra atvika.
Þegar um búsgögn er að ræða eða hluti til persónulegra nota og þess háttar, er verðrýrnun vegna aldurs og brúkunar því aðeins dregin frá verðinu, að telja megi, að notagildi hlutanna fyrir vátryggðan hafi minnkað svo verulegu nemi.
Sé hús, sem skaðast hefur, byggt að nýju eða við það gert, skal aðeins dreginn frá mismunur milli gamals og nýs.
38. gr. Bætur fyrir hluti, sem vátryggður hefur framleitt sjálfur til sölu, skulu ákveðnar í samræmi við verð það, er fengist hefði fyrir þá, síðast áður en vátryggingaratburðurinn gerðist, við sölu þeirra með venjulegum skilmálum, en draga skal frá því venjulegan sölukostnað, verslunaráhættu þá, er hjá varð komist, og það hagræði að verðið er greitt út í hönd.
39. gr. Enda þótt umsamið sé á annan veg, er félaginu óskylt að greiða hærri bætur en með þarf til þess að bæta tjón það, sem orðið hefur.
Sé kveðið á um ákveðið verð hinna vátryggðu muna í vátryggingarsamningnum, eða samið um tiltekna aðferð við mat á tjóninu, þá eru þau ákvæði skuldbindandi fyrir félagið, nema það sanni, að bæturnar mundu þá nema meiru en upphæð tjónsins.
Vátrygging undir verði.
40. gr. Sé vátryggingarfjárhæðin lægri en verð hinna tryggðu hagsmuna, er ábyrgð félagsins aðeins hlutfallsleg eftir mun þeim, sem er á vátryggingarfjárhæðinni og verði hins tryggða.
Tvítrygging.
41. gr. Séu sömu hagsmunir vátryggðir gegn sömu hættu hjá fleiri félögum en einu, ábyrgist hvert þeirra með sama hætti og væri það eitt vátryggjandi.
42. gr. Ef fleiri félög en eitt bera ábyrgð á tjóni og bætur þær, er greiða skal, eru lægri en samanlagðar bótafjárhæðir þær, er félögin ábyrgjast, skal skipta ábyrgðinni milli félaganna í hlutfalli við fjárhæðir þær, er hvert þeirra um sig ábyrgist. Geti eitthvert félaganna eigi greitt sinn hluta bótanna, skal skipta því, sem á vantar fulla greiðslu, milli hinna í samsvarandi hlutfalli innan þeirra takmarka, sem sett eru í 1. málsl. þessarar greinar.
43. gr. Ef fyrirvari er um það gerður í vátryggingarsamningi, að félagið skuli að öllu eða nokkru leyti leyst úr ábyrgð, ef hinir sömu hagsmunir eru eða verða síðar vátryggðir hjá öðru félagi, þá á vátryggður þó rétt á bótum fyrir tjón, er hann fær eigi bætt samkvæmt hinni vátryggingunni. Ef fleiri félög en eitt hafa tekið á sig vátryggingu á sömu hagsmunum og öll sett það skilyrði fyrir ábyrgð sinni, að hagsmunir þessir væru eigi vátryggðir annars staðar, þá ábyrgjast öll félögin samt sem áður í hlutfalli við þá fjárhæð, sem hvert þeirra um sig hefði ábyrgst, ef það eitt hefði tekið vátrygginguna á sig. Geti eitthvert félaganna eigi greitt sinn hluta bótanna, skal skipta því, sem á vantar fulla greiðslu, milli hinna í samsvarandi hlutfalli.
Nú er ekki aðeins ábyrgðin heldur og rétturinn til iðgjalda háður því, samkvæmt samningnum, að vátrygging sé eigi tekin annars staðar, og koma þá ákvæði 1. mgr. eigi til greina.
Félagið getur bundið ábyrgð sína því skilyrði, að vátryggður beri sjálfur áhættu á nokkrum hluta hagsmuna þeirra, sem tryggðir eru, svo og að hann tryggi eigi annars staðar aðra hagsmuni en þá, er ræðir um í 36. gr.
44. gr. Vátryggðum er skylt að skýra félagi því, er hann krefur bóta, frá því, hjá hvaða félögum öðrum hann einnig hefur tekið vátryggingu. Ber hann ábyrgð á tjóni því, er af því kann að leiða, að hann vanrækti að skýra frá þessu.
Ef svo er um samið, að vátryggingartaki eða vátryggður skuli, áður en vátryggingaratburðinn ber að höndum, skýra félaginu frá því, ef sömu hagsmunir eru vátryggðir annars staðar, þá hefur vanræksla hans á því eigi önnur áhrif en þau, er segir í 1. mgr., og það enda þótt annað hafi verið ákveðið í samningi.
Aukin áhætta.
45. gr. Ef hætta, sem sérstaklega er nefnd í skírteininu, breytist síðar með vilja vátryggðs á þann veg, að áhætta félagsins eykst fram yfir það, sem ætla má, að haft hafi verið í huga, er samningurinn var gerður, er félagið laust úr ábyrgð, ef ætla má, að það hefði eigi tekið vátrygginguna á sig, ef aðstæður þær, er skapast hafa við breytinguna, hefðu verið fyrir hendi, þegar samningurinn var gerður.
Ef ætla má, að félagið hefði tekið vátrygginguna á sig með öðrum kjörum, verður ábyrgð þess á sömu leið, sem hún mundi hafa orðið, ef það hefði haldið vátryggingunni áfram fyrir sama iðgjald og því verið kunnugt um hina auknu hættu. Ef félagið hefði takmarkað sjálfs sín ábyrgð enn frekara með endurtryggingu, lækka bæturnar hlutfallslega.
Um sjóvátryggingar og aðrar flutningatryggingar gildir sú regla, í stað þess er segir í 2. mgr., að félagið ábyrgist aðeins að því leyti til, sem aukning hættunnar hefur eigi haft áhrif um það, að vátryggingaratburðinn bar að höndum, né um það, hve mikið tjónið varð.
46. gr. Nú eykst áhættan, en ekki með vilja vátryggðs, og fær hann vitneskju um það, en vanrækir að ástæðulausu að skýra félaginu frá því, og er þá sem breytingin hefði orðið með vilja hans.
47. gr. Nú eykst áhættan svo sem segir í 45. gr., og má félagið þá segja vátryggingunni upp með viku fyrirvara, hvort sem hættan hefur aukist með eða án vilja vátryggðs.
48. gr. Vilji félagið bera það fyrir sig, að áhættan hafi aukist, verður það, án ástæðulausrar tafar, er það hefur fengið vitneskju um aukningu áhættunnar, að tilkynna vátryggðum, að það hyggist neyta réttar síns samkvæmt 45.–47. gr.
49. gr. Félagið getur eigi krafist lausnar frá skyldum sínum vegna þess, að áhættan hafi aukist, þegar sú áhættuaukning er eigi lengur fyrir hendi eða hún skiptir eigi lengur máli fyrir félagið.
Sama gildir, er áhættan hefur aukist við ráðstafanir, sem gerðar eru til þess að varna því, að tjón verði á mönnum eða eignum, og ráðstafanir þessar verða taldar réttmætar.
50. gr. Félagið getur eigi borið fyrir sig samning um það, að aukning áhættunnar skuli hafa áhrif að lögum endranær eða í ríkara mæli en greinir í 45.–49. gr. Þó má semja svo um, að reglunum í 2. mgr. 45. gr. skuli beitt í stað reglnanna í 3. mgr. sömu greinar eða öfugt.
Þegar hlutur er vátryggður í þágu þriðja manns og hluturinn er í varðveislu vátryggingartaka, hefur áhættuaukning, sem hann hefur valdið viljandi, sömu áhrif, sem væri hún af völdum vátryggðs. Sama gildir um vátryggingu gegn rekstrartapi.
Varúðarreglur.
51. gr. Ef mælt er í vátryggingarsamningi fyrir um varúðarreglur, er gætt skuli, áður en vátryggingaratburðinn ber að höndum, til þess að afstýra honum eða draga úr tjóni því, er af honum kynni að leiða, og hafi vátryggður eða annar maður, sem skylt var að gæta þess, að varúð þessi sé viðhöfð, orðið sekur um vanrækslu á að gæta hennar, á vátryggður aðeins kröfu á hendur félaginu, þegar og að svo miklu leyti, sem telja má sannað, að það hafi eigi verið að kenna vanrækslu á því, að reglum þessum væri fylgt, að vátryggingaratburðurinn gerðist eða hve víðtækar afleiðingar hans urðu.
Nú er fyrirmæla um varúð, þeirra, er getur í 1. mgr., eigi gætt, og ber það vott um hirðuleysi, svo að ástæða er til að óttast, að einnig verði vanrækt að gæta þeirra síðar, eða sé af öðrum rökum ástæða til að óttast frekari vanrækslu, og má félagið þá segja samningnum upp með viku fyrirvara. Samningar þess efnis, að félagið skuli leyst úr ábyrgð í ríkara mæli en hér var lýst, er slíkra fyrirmæla er eigi gætt, hafa eigi gildi að lögum.
Ráðstafanir til að varna tjóni.
52. gr. Þegar vátryggingaratburðurinn hefur gerst eða bein hætta er á því, að hann muni að höndum bera, ber vátryggðum að reyna af fremsta megni að afstýra tjóninu eða draga úr því. Eigi vátryggður rétt til bóta frá þriðja manni fyrir tjón, sem félaginu er skylt að bæta, ber honum að gera þær ráðstafanir, sem eftir atvikum eru nauðsynlegar til að tryggja endurgreiðslukröfu félagsins, þar til félagið getur gætt hagsmuna sinna sjálft. Hafi félagið gefið ákveðin fyrirmæli um þetta efni, ber vátryggðum að fara eftir þeim eftir því sem honum er unnt.
Vanræki hann þessa skyldu sína af ásettu ráði eða stórkostlegu gáleysi, ábyrgist félagið eigi það tjón, sem ætla má, að af því hafi hlotist. Eigi verður, svo gilt sé, samið um það, að vanræksla vátryggðs eða annarra á að gera áðurnefndar ráðstafanir skuli hafa ríkari áhrif en hér var sagt.
53. gr. Vátryggingin nær til tjóns og kostnaðar, er vátryggður hefur af ráðstöfunum þeim, sem ræðir um í 52. gr. og hæfilegar þykja eftir atvikum. Ákvæðum 40. gr. skal beitt um þetta efni eftir atvikum.
Félaginu er skylt að bæta nefndan kostnað, þótt bæturnar þá verði hærri en vátryggingarfjárhæðinni nemur.
Vátrygging hagsmuna þriðja manns.
54. gr. Sé hlutur vátryggður og eigi greint, hverjum sú trygging skuli til hagsbóta, þá telst vátryggingin vera hverjum þeim til hagsbóta, er bíða mundi tjón við það, að hluturinn skemmdist eða færi forgörðum, vegna þess að hann ætti hlutinn eða veðrétt í honum eða önnur óbein eignarréttindi, eða vegna þess, að hann bæri áhættuna af því, að hluturinn færist. Ákvæði þetta gildir þó því aðeins um sjóveðrétt, að persónuleg krafa gegn eiganda veðsins sé veðréttinum samfara.
Sé áskilið, að vátryggingin skuli falla úr gildi við eigandaskipti, gildir hún þó í 14 daga, — í 3 daga, er um búfjártryggingu er að ræða, — frá eigandaskiptunum, að svo miklu leyti sem hinn nýi eigandi á ekki rétt á bótum samkvæmt vátryggingu, er hann hefur aflað sér sjálfur. Ákvæði þetta gildir eigi um sjóvátryggingu á skipi.
55. gr. Vátrygging á búsmunum tekur, sé annað eigi ljóst af atvikum málsins, einnig til búsmuna maka vátryggingartaka, barna hans, sem hjá honum eru, og heimilisfólks hans, sem er í persónulegri þjónustu hans.
56. gr. Ef tekin er vátrygging á hagsmunum þriðja manns eða taki hún lögum samkvæmt til hagsmuna annarra manna, er vátryggingartaka þó heimilt, gagnvart þeim, að taka ákvarðanir um breytingar á samningnum, riftun hans eða uppsögn, og getur hann einnig, svo gilt sé, tekið við uppsögn og öðrum tilkynningum, er vátrygginguna varða. Þetta gildir þó eigi, ef annað leiðir af lögskiptum hans og þriðja manns.
Hafi vátryggingartaki gert slíka ráðstöfun í heimildarleysi, er hún samt skuldbindandi gagnvart félaginu, nema því aðeins, að það hafi vitað eða mátt vita, að vátryggingartaka skorti rétt til þess. Þegar um sjóvátryggingu eða aðra flutningatryggingu er að ræða, gildir þetta þó því aðeins, að vátryggingartaki sýni skírteinið, svo að athugasemdir verði ritaðar á það eftir þörfum, eða hann sanni, að eigi hafi verið gefið út farmskírteini eða farmbréf þess eðlis, að sendandi varningsins geti eigi ráðstafað honum, eftir að hann hefur látið bréfið af höndum.
57. gr. Þegar vátryggingaratburðinn ber að höndum, á sá rétt á bótum, sem á hagsmuni þá, er vátryggingin tók til, þótt honum hafi ekki verið skýrt frá vátryggingunni.
Þó getur vátryggingartaki, svo gilt sé, samið við félagið um bæturnar og tekið við greiðslu þeirra, nema því aðeins, að vátryggingartaki hafi nefnt til ákveðinn mann eða einhver hafi gefið sig fram við félagið sem rétthafa, eða loks að vátryggður eigi rétt til vátryggðra fasteigna, er tryggður sé með þinglýsingu. Ákvæðum síðasta málsliðar 56. gr. skal beitt, eftir því sem við á.
58. gr. Taki vátrygging samtímis bæði til hagsmuna eiganda og veðhafa, má greiða eigandanum bæturnar, ef tjónið hefur þegar verið bætt, hús, er vátryggt var, byggt upp að nýju, aflað á ný annarra hluta, sem vátryggingin og veðrétturinn náðu til, eða önnur jafngóð trygging sett fyrir því, að veðhafi fái rétti sínum fullnægt. Sama gildir, ef vátryggingin tekur til hagsmuna annarra, sem rétt eiga til hlutarins.
Hafi viðgerð eigi farið fram eða nýrra hluta verið aflað, skal vátryggingarfénu skipt milli eigandans og annarra rétthafa, og skal þá gætt ákvæða 2. mgr. 57. gr.
B. Sjóvátrygging og önnur flutningatrygging.
1. Sjóvátrygging.
59. gr. Þegar talað er um sjóvátryggingu í lögum þessum, er átt við vátryggingu gegn hættu, sem hagsmunir vátryggðs eru lagðir í við flutninga á sjó. Taki vátryggingin einnig til annarrar hættu, er tengd er flutningunum, telst hún í heild sinni sem sjóvátrygging.
Vátrygging, er varðar skip, er lagt hefur verið í lægi eða er í dráttarbraut eða í skipakví, eða liggur kyrrt með öðrum hætti, telst vera sjóvátrygging. Sama gildir um tryggingu á varningi, sem er í slíku skipi.
60. gr. Sé sérstök undantekning eigi gerð í lögum eða í samningi, tekur sjóvátrygging til hvers konar hættu, sem hinir vátryggðu hagsmunir eru lagðir í.
61. gr. Þegar um húftryggingu er að ræða eða vátryggingu farmgjalds, ábyrgist félagið skaðabótaskyldu, er falla kann á vátryggðan gagnvart þriðja manni, þegar skip eða farmgjald eru í ábyrgð fyrir tjóni, er hlotist hefur af árekstri skipa eða árekstri skips við fasta hluti eða á floti, eða þeim atvikum, sem lögð eru á borð við árekstur í 228. gr. a í siglingalögunum. Þegar vátryggt er undir verði, koma ákvæði 40. gr. til greina. Félagið svarar þó ekki til ábyrgðar útgerðarmanns á tjóni á varningi, er var í hinu vátryggða skipi og hlotist hefur af árekstrinum.
62. gr. Félagið ábyrgist ekki tjón á skipi, er eingöngu stafar af sliti, elli eða fúa, og eigi heldur tjón á varningi, er stafar af ónógum umbúðum eða af eðli varningsins sjálfs, svo sem innri skemmdum, rýrnun, venjulegum leka, eða ef dýr deyja.
63. gr. Þegar félagið vátryggir hagsmuni útgerðarmanns, er því óskylt að bæta tjón, er stafar af því, að skipið var óhaffært, er það lét síðast úr höfn, ófullnægjanlega útbúið eða mannað, hafði eigi nauðsynleg skipsskjöl eða var eigi tryggilega hlaðið. Þetta gildir þó ekki, ef ætla má, að hvorki útgerðarmaður né skipstjóri hafi vitað eða mátt vita um það, sem áfátt var.
64. gr. Sé reikningur um niðurjöfnun sameiginlegs sjótjóns gerður á réttum stað og með löglegum hætti, skal félagið greiða framlag það til sjótjónsbóta, sem kemur í hlut hinna vátryggðu hagsmuna að greiða samkvæmt niðurjöfnun tjónsins. Sé vátryggt undir verði, koma ákvæði 40. gr. til greina.
65. gr. Ef kveðið er á um það í farmsamningi, að reikningur um niðurjöfnun sameiginlegs sjótjóns skuli gerður eftir öðrum reglum en lög mæla fyrir um, og leysir það þá eigi félagið við skuldbindingu þess, þótt eftir samningsákvæði þessu sé farið, enda séu reglur þær, sem eftir er farið, notaðar almennt í alþjóðlegum viðskiptum.
66. gr. Þótt heimta megi bætur fyrir tjón, sem orðið hefur á vátryggðum hlut, samkvæmt reglunum um sameiginlegt sjótjón, er vátryggðum þó rétt að krefjast þess, að félagið bæti sér tjónið sem einkasjótjón, og þarf hann ekki að bíða þess, að sjótjónsreikningurinn sé gerður.
Ef félagið greiðir slíkar bætur, öðlast það allan rétt vátryggðs á hendur öðrum hluttakendum í sjótjóninu. Sé vátryggt undir verði, koma ákvæði 40. gr. til greina.
67. gr. Ef flutt er með öðru skipi en því, er nota skyldi samkvæmt vátryggingarsamningnum, er félagið laust úr ábyrgð, ef ætla má, að það hefði eigi tekið vátrygginguna á sig, ef því hefði verið um þetta kunnugt, eða það mundi hafa áskilið sér hærra iðgjald, sett aðra skilmála eða endurtryggt meira af áhættu sinni.
Ef breyting þessi verður, eftir að ferðin er hafin, ber félagið þó ábyrgð, ef breytingin varð án samþykkis vátryggðs eða hún var nauðsynleg vegna atburðar, er vátryggingin tók til. Verði slík breyting án samþykkis vátryggðs, er honum þó skylt að skýra félaginu frá henni, jafnskjótt og hann fær vitneskju um hana. Vanræki hann það, er félagið laust úr ábyrgð á atburðum, er gerast að þeim tíma liðnum.
68. gr. Ef vikið er á ferðinni frá leið þeirri, er ráðgert var í samningnum að farin skyldi, eða að öðru leyti má telja rétta leið, er ábyrgð félagsins lokið, nema því aðeins, að afvik þessi séu gerð án samþykkis vátryggðs.
Ábyrgð félagsins lýkur þó ekki, ef afvik þessi voru nauðsynleg vegna atburðar, er vátryggingin tók til, eða þau voru gerð til þess að forðast tjón á mönnum eða eignum, en atvik lágu svo til, að telja mátti slíkt réttmætt. Félagið er þó leyst úr ábyrgð á tjóni sem verður, ef eigi er aftur horfið á rétta leið, jafnskjótt og unnt er.
Hafi ábyrgð félagsins lokið samkvæmt fyrirmælum 1. eða 2. mgr., ber það samt ábyrgð á vátryggingaratburðum, er gerast, eftir að skipið aftur er komið á rétta leið, ef ætla má að afvikin hafi eigi skipt máli um það, að tjónið varð eða hversu mikið það varð.
Samsvarandi reglur gilda, er skip kemst út fyrir siglingasvæði það, er vátryggingin tekur til.
69. gr. Verði skip eða farmur, sem útgerðarmaður á, fyrir tjóni við björgun á öðru skipi eða farmi þess, er félaginu óskylt að bæta tjón, sem ætla má að fengist hafi bætt með greiðslu björgunarlauna. Komi það í ljós, eftir að bætur hafa verið greiddar, að tjónið hafi fengist bætt að öllu eða nokkru leyti með greiðslu björgunarlaunanna, getur félagið auk þess krafist endurgreiðslu á tilsvarandi hluta bótanna.
70. gr. Vátryggður á rétt á bótum, sem um algert tjón væri að ræða, ef skip, vegna þess að það hefur sokkið eða strandað eða vegna annars atburðar, er vátryggingin tekur til, er svo komið, að ekki er unnt að bjarga því með hæfilegum tilkostnaði, eða það hefur orðið fyrir svo miklum skemmdum, að það er eigi þess virði, að við það sé gert.
Sama gildir, er varningur, vegna atburðar, er vátryggingin tekur til, er svo kominn eða hann svo skemmdur, sem áður var sagt, eða honum hefur verið skipað upp á stað, er hann verður eigi sóttur til innan hæfilegs tíma eða með hæfilegum tilkostnaði.
71. gr. Vátryggður á rétt á bótum, sem um algert tjón væri að ræða, hafi eigi spurst til skips á þreföldum þeim tíma, er að jafnaði fer til ferðar skipsins þaðan, sem síðast fréttist til þess, og til næsta ákvörðunarstaðar þess, þó eigi á skemmri tíma en 3 mánuðum, eða hafi áhöfnin yfirgefið skipið og sé það eigi komið undir umráð vátryggðs innan 3 mánaða, frá því að það var yfirgefið.
Sama gildir um varning, sem í skipinu er, þegar hvorki hann né skipið eru komin fram innan frests þess, er greinir í 1. mgr.
72. gr. Vátryggður á rétt á bótum, sem um algert tjón væri að ræða, ef erlent ríki leggur farbann á skip eða farm eða þau eru hernumin eða kyrrsett með líkum hætti og eigi látin laus innan 6 mánaða.
Ef vátryggður vill neyta þessa réttar, skal hann skýra félaginu frá því innan 3 mánaða frá því hann fékk vitneskju um atvik þau, er veita honum þennan rétt.
73. gr. Þegar félagið hefur greitt bætur fyrir algert tjón, öðlast það rétt vátryggðs til þess, er enn kynni að vera til af munum þeim, er það hefur bætt. Félagið getur og krafist þess, að vátryggður afhendi sér öll skjöl og sönnunargögn, er varða muni þessa og hann getur látið í té.
Sé um vátryggingu undir verði að ræða, á félagið þó aðeins rétt á hluta af fjármunum þessum eftir hlutfalli því, sem er á milli vátryggingarverðsins og vátryggingarfjárhæðarinnar.
74. gr. Beri tjón að höndum oftar en einu sinni á vátryggingartímabilinu, bætir félagið það, enda þótt bótagreiðslurnar samanlagðar verði hærri en vátryggingarfjárhæðin.
Þegar tjón hefur orðið, getur félagið þó leyst sig úr allri ábyrgð á atburðum, sem gerast, og kostnaði, sem á fellur, eftir að vátryggingartaki hefur fengið tilkynningu um að félagið vilji neyta þessa réttar síns, enda greiði það áður alla vátryggingarfjárhæðina að viðbættum kostnaði þeim, sem þegar er á fallinn. Þegar þannig stendur á, verður ákvæðum 73. gr. ekki beitt.
75. gr. Vátryggingarverð skips er verð þess á þeirri stundu, er ábyrgð félagsins hófst.
Ef kveðið er á um tiltekið verð á skipi, þegar vátryggingarsamningurinn er gerður (verðsett skírteini), er sú verðákvörðun skuldbindandi fyrir félagið, ef það getur eigi sannað, að hið tiltekna verð sé hærra en svo, að sanngjarnt sé að telja það vátryggingarverð skipsins.
Verð á vátryggðum vörum skal ákveðið — án þess að tillit sé tekið til síðari verðbreytinga — sem verð það, er greitt var á fráfararstaðnum síðast, áður en flutningarnir hófust, fyrir sams konar vörur afhentar frítt í skip eða annað flutningatæki, að viðbættum 10% svo og iðgjaldi fyrir almenna vátryggingu og farmgjaldi, eigi það að greiðast, hvort sem flutningunum verður lokið eða eigi.
76. gr. Ef vátryggingu mundi lokið, meðan skipið er á ferð sinni, hvort heldur það er samkvæmt samningnum eða fyrir uppsögn vegna annarra atvika en vanskila á greiðslu iðgjalds, fellur samningurinn þó fyrst úr gildi við lok komudags skipsins til fyrsta ákvörðunarstaðar þess. Ef vátryggingin framlengist af þessum sökum, getur félagið krafist iðgjalds fyrir framlenginguna.
2. Önnur flutningavátrygging.
77. gr. Sé sérstök undantekning eigi gerð í lögum eða í samningi, tekur önnur flutningavátrygging en sjóvátrygging til sérhverrar hættu, sem hinir vátryggðu hagsmunir eru lagðir í við flutningana.
78. gr. Ákvæðum 62., 67., 68., 72., 73., 74. og 75. gr. skal beitt eftir því sem við á.
C. Brunatrygging.
79. gr. Brunatrygging tryggir tjón, er verður vegna eldsvoða á hlut, sem vátryggingin tekur til, jafnvel þótt eigi kvikni í honum. Tryggingin tekur ekki til tjóns, sem hlýst af eldi, sem ekki verður talinn eldsvoði.
80. gr. Sé hlut af ásettu ráði stofnað í hættu af hita, við suðu, þurrkun, reykingu eða því um líkt, ber félagið ekki ábyrgð á tjóni, sem verður á hlutnum af þeim sökum, þótt í honum kvikni.
81. gr. Ef eigi er öðruvísi um samið, ábyrgist félagið með sama hætti og brunatjón tjón, sem hlýst af því, að eldingu lýstur niður, þótt eigi verði af því eldsvoði.
Hafi félagið tekið á sig ábyrgð á tjóni, er verður við sprengingu, sem eigi er afleiðing bruna, fer um það eftir ákvæðunum um brunatryggingar.
82. gr. Ef hlutir, sem brunatryggðir eru, týnast við eldsvoða vegna þjófnaðar eða af öðrum sökum, eða skemmist þeir, er reynt er að bjarga þeim frá bruna, telst það tjón vera brunatjón. Sama gildir, ef þeir eyðileggjast eða skemmast við það, að reynt er að koma í veg fyrir eldsvoða eða hefta útbreiðslu hans, enda sé það eftir atvikum talið réttmætt að leggja þá í sölurnar. Gildir þetta, þótt engum hlut, sem tryggingin nær til, sé hætt vegna eldsvoðans.
83. gr. Sé vátryggður hlutur annars staðar en greint var, er vátrygging á honum var tekin, þegar vátryggingaratburðinn ber að höndum, er félagið samt sem áður ábyrgt, nema því aðeins að ætla megi, að félagið hefði ekki tekið á sig vátrygginguna, áskilið sér hærra iðgjald eða aðra skilmála, eða endurtryggt sig frekara, ef til þess hefði verið sagt, að staður sá, þar sem vátryggingaratburðurinn gerðist, væri vátryggingarstaðurinn.
Þegar vátryggðir eru búsmunir, ábyrgist félagið með allt að 15% af vátryggingarfjárhæðinni, þó ekki hærri upphæð en 10.000 kr., brunatjón, er verður, er hinir vátryggðu munir til bráðabirgða eru á öðrum stað innanríkis en tilgreindur er í skírteininu, og það þótt áhættan hafi aukist af þeim sökum.
84. gr. Ef vátrygging gildir um eins árs tíma, skal telja, að hún framlengist um ár að hverju sinni, ef eigi má ætla, að á annan veg hafi verið um samið, og hvorki vátryggingartaki né félagið hafa sagt tryggingunni upp í síðasta lagi viku fyrir lok vátryggingartímabilsins.
85. gr. Ákvæði í 18. og 19. gr. gilda einnig, er maki vátryggðs, sem samvistum er við hann, hefur valdið því, að vátryggingaratburðurinn gerðist.
86. gr. Ef veðbönd hvíla á vátryggðri fasteign og félagið leysist úr ábyrgð gagnvart eiganda hennar samkvæmt 4. eða 6. gr. eða 2. mgr. 50. gr., getur veðhafi þó krafist fullnustu af bótum þeim, er ella hefði átt að greiða, enda geti hann hvorki fengið fullnustu af veðinu né af öðrum eignum skuldarans. Félagið öðlast rétt veðhafans gegn skuldaranum að því leyti, sem það hefur greitt veðhafanum bætur.
Sama gildir, ef vátryggingin tryggir hagsmuni annarra, er rétt eiga til hlutarins.
87. gr. Ef vátrygging fasteignar fellur úr gildi samkvæmt samningi eða sé vátryggingarfjárhæðin lækkuð eða ljúki ábyrgð félagsins vegna vangreiðslu iðgjalds eða eigandaskipta, þá hefur það eigi gildi að lögum gagnvart veðhafa fyrr en 14 dögum eftir að hann hefur fengið tilkynningu félagsins um það.
Ákvæðum 1. mgr. 51. gr. verður því aðeins beitt gagnvart veðhafa, að hann eigi sjálfur sök á því, að fyrirmælunum var eigi fylgt.
Að öðru leyti skulu enn í gildi ákvæði, er sett eru í sérlögum um brunatryggingar fasteigna, eða reglugerðum, sem settar eru samkvæmt þeim, til verndar veðhöfum eða öðrum, sem rétt eiga til eignarinnar.
Ákvæði þessi gilda og um fylgifé með fasteign, enda taki vátryggingin til þess.
88. gr. Félagið getur eigi borið fyrir sig ákvæði í samningi, sem hafa að geyma afvik frá reglum þeim, sem settar eru í 86. og 87. gr. veðhafa til varnar.
D. Búfjártrygging.
89. gr. Deyi dýr eða sé því slátrað innan mánaðar frá lokum vátryggingartímans vegna afleiðinga atburðar, er samningurinn tók til og gerðist á vátryggingartímanum, er félagið í ábyrgð eins og dýrið hefði dáið á vátryggingartímanum.
90. gr. Deyi dýr eða sé því slátrað vegna sjúkdóms eða slyss, skulu bæturnar ákveðnar eftir því hvers dýrið mundi hafa verið vert síðast, áður en það dó, ef það hefði eigi sýkst eða slasast.
E. Ábyrgðartrygging.
91. gr. Ef vátryggt er gegn bótaábyrgð, er maður kann að baka sér gagnvart þriðja manni vegna atvika, er tjón hafa í för með sér, ber félaginu að greiða bætur, ef atvik, sem samningurinn nær til, eiga sér stað á vátryggingartímanum, enda þótt skaðlegar afleiðingar þeirra verði eigi fyrr en síðar.
92. gr. Vátryggingin nær einnig til kostnaðar við vörn vátryggðs gegn kröfum þriðja manns, ef það verður talið eðlilegt eftir atvikum, að vátryggður hafi lagt í þann kostnað.
Ef vátryggður er dæmdur til að greiða vexti af skaðabótagreiðslu, skal farið eftir reglunum í 1. mgr., eftir því sem við á.
Ef kveðið er á tiltekna vátryggingarfjárhæð í samningnum, ber félaginu að greiða nefnda vexti og kostnað, þótt greiðsla þess af þeim sökum fari fram úr vátryggingarfjárhæðinni. Ef vátryggingarfjárhæðin er lægri en skaðabótagreiðsla sú, sem dæmd er, ber félaginu þó aðeins skylda til að greiða þann hluta vaxtanna, er svarar til bótafjárhæðar þeirrar, er því ber að greiða.
93. gr. …1)
1)L. 31/1990, 44. gr.
94. gr. Ákvæði í samningi þess efnis, að félagið skuli leyst úr ábyrgð, ef vátryggður án samþykkis þess greiðir bætur eða viðurkennir rétta bótakröfu, sem fram er komin, eru ógild að því leyti, er telja má sannað, að vátryggður hafi aðeins gert það, sem honum var skylt að lögum, er hann greiddi kröfuna eða viðurkenndi réttmæti hennar.
95. gr. Þegar staðreynt hefur verið, að vátryggður sé skaðabótaskyldur þeim, er tjónið beið, og upphæð bótanna ákveðin, öðlast sá, sem tjónið beið, rétt vátryggðs á hendur félaginu að því leyti til, sem kröfu hans er eigi þegar fullnægt.
[Nú er sakarefni skipt í skaðabótamáli út af slysi og eingöngu dæmt um skaðabótaskyldu, og getur þá dómur ákveðið, svo að bindandi sé fyrir félagið og aðfararhæft gagnvart því, að tjónvaldur greiði tjónþola ákveðna fjárhæð upp í væntanlegar skaðabætur, er komi til frádráttar, þegar bætur verða endanlega ákveðnar.]1)
Eigi fleiri menn, er tjón hafa beðið, bótakröfur, er af vátryggingaratburði eru risnar, og nemi kröfur þær, er þeir hafa lýst á hendur félaginu, samanlagðar meiru en félaginu er skylt að greiða, skal þeim fullnægt að réttri tiltölu, sé eigi um annað samið.
1)L. 50/1975, 1. gr.
96. gr. Þegar félaginu er orðið kunnugt um, að vátryggingaratburður hefur gerst, getur það eigi með samningum við vátryggðan komið því til leiðar, að réttur sá, er 95. gr. veitir þeim, er tjónið beið, sé rýrður eða honum spillt.
III. kapítuli. Líftryggingar.
Almenn ákvæði.
97. gr. Líftryggingu má miða hvort heldur er við líf vátryggingartaka eða við líf þriðja manns.
98. gr. Eigi að greiða iðgjöld fyrir ákveðin tímabil, er vátryggingartaka óskylt að halda tryggingunni við með því að greiða hin síðari iðgjöld.
99. gr. Vilji félagið takmarka ábyrgð sína, ef svo skyldi fara, að áhættan ykist, skal það tekið skýrt fram í skírteininu, bæði hvaða áhættuaukning skuli hafa þessi áhrif og hvaða áhrif hún skuli hafa.
100. gr. Hafi sá, sem tryggður er, svipt sjálfan sig lífi og vátryggingin eigi verið óslitið í gildi að minnsta kosti síðustu 2 árin, er félagið leyst úr ábyrgð, nema telja megi sannað, að tryggingin hafi verið tekin eða henni aflað gildis að nýju, án þess að sjálfsmorð hafi verið haft í huga, og að sjálfsmorðið mundi hafa verið framið jafnt fyrir því, þótt líftrygging hefði engin verið.
101. gr. Þótt félagið sé leyst úr ábyrgð eftir ákvæðum laga þessara eða samkvæmt skilmálum þeim, er um var samið, skal þó farið eftir reglum þeim um endurkaup vátryggingarinnar eða breytingu hennar í iðgjaldafrjálsa tryggingu, sem gilda samkvæmt lögum eða samningum.
Höfuðstólstrygging.
102. gr. Vátryggingartaki getur, hvort heldur er þegar vátryggingin er tekin eða síðar, tilnefnt annan mann sem rétthafa í sinn stað, og skal þá vátryggingarfjárhæðin greidd beint til þess manns.
Vátryggingartaki getur afturkallað ákvörðun þessa, hafi hann eigi þegar afsalað sér rétti til slíkrar afturköllunar gagnvart þeim, er hann setti í sinn stað. Þessi afturköllunarréttur vátryggingartaka hverfur eigi til erfingja hans eða dánarbús.
103. gr. Ákvörðun vátryggingartaka, sem um ræðir í 102. gr., svo og afturköllun hennar eru því aðeins gildar, að félaginu sé skýrt frá þeim skriflega eða félagið hafi getið þeirra í skírteininu eða skráð á það athugasemd um þær.
104. gr. Ef greiða á vátryggingarfjárhæðina við lát vátryggingartaka og hann hefur eigi tilnefnt annan mann sem rétthafa í sinn stað, skal hún renna til dánarbús hans.
Ef vátryggingartaki hefur tilnefnt annan mann sem rétthafa í sinn stað, og sá maður er ekki skylduerfingi hans, en vátryggingartaki lætur eftir sig maka, lífserfingja, arfgeng kjörbörn eða lífserfingja þeirra, skal farið með vátryggingarfjárhæðina, að því er varðar búshluta og skylduarf þessara manna, eins og hún heyrði til dánarbúinu og vátryggingartaki hefði ánafnað þeim, er hann tilnefndi í sinn stað, hana með arfleiðsluskrá. Þetta gildir þó eigi, ef vátryggingartaki hefur afsalað sér rétti sínum til að afturkalla ánöfnunina.
Nú hefur vátryggingarfjárhæðin samkvæmt 102. gr. enn eigi verið greidd hinum tilnefnda rétthafa, og gefur sig einhver fram við félagið og sannar nægilega með því að sýna hjúskaparvottorð, útskrift af skiptagerð eða með einhverju þess háttar, að hann sé einn af eftirlátnum vandamönnum vátryggingartaka, þeirra er getur í 2. mgr., og ber af þeim sökum fram mótmæli gegn því, að fjárhæðin sé greidd hinum tilnefnda rétthafa, og má þá félagið eigi greiða fjárhæðina, fyrr en skorið hefur verið úr því með sátt eða lögsókn milli aðila, hver rétt eigi á fjárhæðinni. Félaginu er þó ávallt rétt að greiða hinum tilnefnda rétthafa allt að þriðjungi vátryggingarfjárhæðarinnar eða hæfilegan útfararkostnað vátryggingartaka, hafi hann annast um útför hans.
105. gr. Þegar greiða skal vátryggingarfjárhæðina við lát vátryggingartaka og skýra þarf ákvæði hans, er hann hefur tilnefnt annan mann sem rétthafa í sinn stað, skal eftirfarandi reglum fylgt, ef atvik málsins leiða eigi til annars.
Sé maki vátryggingartaka tilnefndur, er það sá maki, sem hann lifði í hjúskap með er hann andaðist.
Ef vátryggingartaki hefur tilnefnt börn sín, teljast lífserfingjar hans, þar á meðal kjörbörn og lífserfingjar þeirra, rétthafar að þeim hluta hver, sem erfðalög segja til um.
Hafi vátryggingartaki tilnefnt erfingja sína, taka þeir allir sinn hlut hver vátryggingarfjárhæðarinnar í hlutfalli við erfðarétt þeirra eftir vátryggingartaka, að lögum eða samkvæmt arfleiðsluskrá.
Hafi vátryggingartaki tilnefnt „nánustu vandamenn“ sína, telst maki hans vera rétthafi, en sé maki eigi á lífi, þá börn hans, og séu þau heldur eigi á lífi, þá erfingjar hans, allt samkvæmt reglum þeim, er áður var lýst.
106. gr. Nú lifir maður sá, er vátryggingartaki hefur tilnefnt sem rétthafa í sinn stað, skemur en hann, og fellur sú ánöfnun þá niður, enda eigi að greiða vátryggingarfjárhæðina við lát vátryggingartaka eða síðar.
107. gr. Þegar svo er um samið, að vátryggingarfjárhæðin skuli greidd, annaðhvort við lát vátryggingartaka eða þegar hann hefur náð tilteknum aldri, og vátryggingartaki hefur tilnefnt annan mann sem rétthafa í sinn stað, tekur réttur þess, sem tilnefndur var, aðeins til að fá vátryggingarfjárhæðina greidda við lát vátryggingartaka.
108. gr. Þótt vátryggingartaki tilnefni annan mann sem rétthafa í sinn stað, þá skerðir það eigi rétt hans til að krefjast endurkaupsverðsins eða til að framselja réttindi þau, er vátryggingarsamningurinn veitir honum, veðsetja þau eða ráða fyrir þeim með öðrum hætti.
Hafi vátryggingartaki afsalað sér, gagnvart þeim manni, er hann tilnefnir, rétti sínum til að afturkalla þá ánöfnun sína, telst hann jafnframt hafa afsalað sér rétti til að ráðstafa vátryggingunni á þann veg, að réttur hins tilnefnda manns verði rýrður eða honum spillt, án þess að samþykki hans komi til.
109. gr. Sá, sem vátryggingartaki hefur tilnefnt sem rétthafa í sinn stað, má ekki framselja kröfu sína, veðsetja hana, eða ráðstafa henni með öðrum hætti, fyrr en vátryggingaratburðinn hefur að höndum borið, hvort sem vátryggingartaki hefur afsalað sér rétti til afturköllunar eða eigi.
110. gr. Ef svo er ákveðið í líftryggingarsamningi, að vátryggingarfjárhæðin skuli eigi greidd við lát vátryggingartaka, heldur síðar, eða hafi maður miðað vátryggingu við líf annars manns, og hafi vátryggingartaki tilnefnt annan mann sem rétthafa í sinn stað, þá öðlast sá maður rétt þann, er samningurinn veitir vátryggingartaka, við lát hans, liggi atvik eigi til annars.
111. gr. Sá, sem fengið hefur framsal á líftryggingarskírteini að kaupi eða með öðrum hætti, öðlast þar með öll þau réttindi gegn félaginu, sem samningurinn veitir. Við framsalið fellur niður réttur þess manns, er vátryggingartaki hefur tilnefnt sem rétthafa í sinn stað, svo fremi vátryggingartaki hefur eigi afsalað sér rétti til að afturkalla þá ráðstöfun sína.
112. gr. Þótt vátryggingartaki veðsetji kröfu sína, þá fellur réttur þess manns, er hann hefur tilnefnt sem rétthafa í sinn stað, eigi niður af þeim sökum. Hafi vátryggingartaki eigi afsalað sér rétti til afturköllunar, stendur réttur hins tilnefnda manns að baki rétti veðhafans.
Þegar krafa veðhafa er komin í gjalddaga, má hann krefjast greiðslu af endurkaupsverði vátryggingarinnar, en skora skal hann áður, með 2 mánaða fyrirvara, á vátryggingartaka að leysa veðið með greiðslu kröfunnar af téðu verði vátryggingarinnar. Hafi vátryggingaratburðinn þegar borið að höndum, getur hann leitað sér fullnustu af vátryggingarfjárhæðinni. Veðhafa er óheimilt að framselja vátryggingarkröfuna, enda þótt svo hafi verið um samið.
Veðrétturinn telst ekki taka til kröfu um uppbót (bonus), sem fellur í gjalddaga, áður en veðhafinn leitar fullnustu.
113. gr. Löggerningar, er varða réttindi þau gegn félaginu, sem af líftryggingarsamningnum leiðir, og eigi er neitt skráð um á skírteinið, verða ekki bornir fram gegn þeim manni, er síðar eignast slík réttindi í grandleysi við afsalsgerning, enda hafi hann fengið skírteinið í vörslur sínar eða rituð hafi verið á skírteinið athugasemd um rétt hans.
114. gr. Það verður eigi borið fram gegn þeim, er samkvæmt 113. gr. hefur í grandleysi öðlast rétt yfir skírteininu, að vátryggingarfjárhæðin eða endurkaupsverðið hafi þegar verið greitt, né að ákvörðun hafi verið gerð um breytingu á gildandi samningsákvæðum, nema því aðeins, að löggerningurinn hafi verið gerður við grandlausan mann, er hafði skírteinið í höndum með formlega löglegri heimild, og skírteininu hafi annaðhvort verið skilað félaginu eða á það hafi verið rituð athugasemd um það, sem gerst hefur.
115. gr. Nú er skírteini gefið út til handhafa eða það er síðar framselt handhafa, og verður hann allt að einu að gera félaginu grein fyrir heimild sinni, ef hann vill fá vátryggingarfjárhæðina greidda sér eða ráðstafa vátryggingunni með öðrum hætti.
Það nægir ekki til þess að vátryggingartaki sé talinn hafa tilnefnt annan mann sem rétthafa í sinn stað, þótt svo sé ákveðið, að vátryggingarfjárhæðin skuli greidd handhafa skírteinisins.
116. gr. Skuldheimtumenn vátryggingartaka eða þess manns, er hann hefur tilnefnt sem rétthafa í sinn stað, geta eigi leitað fullnustu í rétti þeirra gegn félaginu, sbr. þó 117. gr.
Hafi líftryggingarskírteini verið framselt, geta skuldheimtumenn framsalshafa gengið að rétti hans, nema því aðeins að hann sé maki vátryggingartaka eða hafi öðlast skírteinið endurgjaldslaust. Þegar þannig stendur á, koma ákvæði 117. gr. til greina, eftir því sem við á, að því er varðar iðgjöld þau, er framsalshafi hefur greitt, eða, sé um maka að ræða, að því er varðar endurgjald það, er hann kann að hafa greitt fyrir framsalið.
117. gr. Sé bú vátryggingartaka tekið til gjaldþrotaskipta og komi það í ljós, að hann hefur á síðustu 3 árum fyrir gjaldþrotið varið meira fé til iðgjaldagreiðslu en samsvarað hafi efnahag hans, er hann innti þær greiðslur af höndum, getur búið krafist þess af félaginu, að það greiði sér það, sem ofgreitt var, svo framarlega sem hægt er að greiða það af endurkaupsverði vátryggingarinnar, hafi hún slíkt verðgildi, en að öðrum kosti af höfuðstólsverði iðgjaldsfrjálsrar tryggingar, er vátryggingartaki mundi eiga rétt á fyrir fjárgreiðslur þær, er hann þegar hefur innt af hendi.
Hafi vátryggingarfjárhæðin fallið í gjalddaga áður en gjaldþrotaskiptin hófust, og sé hún enn ógreidd, eða falli hún í gjalddaga meðan á búskiptunum stendur, getur búið, með skilyrðum þeim, er greinir í 1. mgr., krafist þess, að tilsvarandi hluti hennar verði greiddur sér.
Reglum þessum skal einnig beita, er vátryggingartaki hefur tilnefnt annan mann sem rétthafa í sinn stað, og það þótt hann hafi skuldbundið sig til að afturkalla eigi þá tilnefningu. Hafi sá, sem tilnefndur var, greitt endurgjald fyrir, má hann krefja búið um endurgreiðslu þess. Hafi vátryggingarfjárhæðin verið greidd honum, má búið beina kröfu sinni gegn honum.
Lífeyristrygging.
118. gr. Reglur þær, sem settar eru um höfuðstólstryggingu, gilda og um lífeyristryggingar. Félagið leysist þó frá skyldu sinni, ef það greiðir lífeyrisgreiðslu, sem í gjalddaga er komin, þeim manni, sem talinn er vera lífeyrisþegi, meðan það eigi hefur fengið vitneskju um, að rétturinn til hennar hafi verið framseldur öðrum. Þetta gildir, enda þótt eigi hafi verið ritað á skírteinið, að greiðsla hafi farið fram.
Ef greiða á lífeyrinn í lífstíð annars manns en vátryggingartaka, skal litið svo á, að vátryggingartaki hafi tilnefnt hann sem rétthafa í sinn stað.
IV. kapítuli. Slysa- og sjúkratryggingar.
119. gr. Vátryggingu má taka gegn slysum og sjúkdómum, hvort heldur er vátryggjanda sjálfs eða þriðja manns.
120. gr. Beri slys eða sjúkdóm, er vátryggingin tekur til, að höndum á vátryggingartímabilinu, ábyrgist félagið einnig þær skaðlegu afleiðingar þess, er eigi koma í ljós fyrr en síðar.
121. gr. Ef einhver þau atvik ber að höndum á vátryggingartímabilinu, sem sagt er um í skírteininu skýrt og greinilega, að hafi aukna hættu í för með sér, og er þeim manni, er líf hans eða heilbrigði er tryggt, um þetta kunnugt, er félagið laust úr ábyrgð meðan aukin hætta stafar af þeim, ef það mundi eigi hafa tekið vátrygginguna á sig, ef ástand það, er af breytingunni leiðir, hefði verið fyrir hendi, er vátryggingin var tekin.
Ef ætla má, að félagið hefði tekið á sig vátrygginguna, verður það ábyrgt í þeim mæli og með þeim skilmálum, sem það mundi hafa sett fyrir áframhaldandi vátryggingu fyrir iðgjald það, er um var samið, og hefði því þá verið kunnugt um aukningu hættunnar. Ef félagið mundi hafa takmarkað ábyrgð sjálfs sín í ríkara mæli, með endurtryggingu, lækka bæturnar í því hlutfalli.
Ákvæði 48. og 2. mgr. 49. gr. gilda um þetta efni eftir því, sem við á.
Samningur um, að aukning hættunnar leysi félagið úr ábyrgð að meira mun en nú var sagt, hefur eigi gildi að lögum. Þó má semja svo um, að sú regla skuli gilda, í stað ákvæða 2. mgr., að félagið beri ábyrgð aðeins að því leyti, sem aukning hættunnar hefur verið áhrifalaus um það, að vátryggingaratburðinn bar að höndum, eða um það, hve mikið tjónið varð.
122. gr. Ákvæði 102.–106. gr. gilda um slysatryggingar og sjúkratryggingar, eftir því sem við á.
123. gr. Skuldheimtumenn vátryggingartaka eða vátryggðs geta hvorugir gengið með lögsókn að rétti vátryggðs gegn félaginu.
124. gr. Hafi sá maður, er líf hans eða heilbrigði hefur verið tryggt, af ásettu ráði eða stórkostlegu gáleysi látið hjá líða að gera þær ráðstafanir, sem sanngjarnlega mátti ætlast til, að hann gerði eftir atvikum, til þess að varna því, að vátryggingaratburðurinn gerðist eða til þess að draga úr afleiðingum hans, eða hafi hann, án þess að gildar ástæður væru fyrir hendi, ekki farið eftir þeim fyrirmælum, sem félagið hefur gefið honum um það efni, þá ábyrgist það ekki tjón það, sem ætla má að af því hafi leitt. Þetta gildir þó ekki, ef það hefði leitt til óhæfilegrar skerðingar á sjálfsákvörðunarrétti hans, ef hann hefði fullnægt fyrirmælum félagsins.
Um það verður eigi samið, svo gilt sé, að vanrækslan skuli endranær en nú var sagt hafa áhrif að lögum eða víðtækari áhrif.
V. kapítuli. Gildistöku- og bráðabirgðaákvæði.
125. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1954.
126.–132. gr. …
133. gr. Ákvæði þau í öðrum lögum, er leiða til víðtækara öryggis réttar vátryggingartaka eða vátryggðs en samsvarandi ákvæði laga þessara, skulu halda gildi sínu.